Fótbolti

Ísland fékk væna fúlgu stiga í gær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Með 2-0 sigrinum á Noregi í gær er ljóst að Ísland mun hoppa upp um nokkuð mörg sæti á næsta styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Ísland er í 118. sæti listans sem kom síðast út fyrr í vikunni. Næsti er væntanlegur í byrjun október.

Mismikil stig eru gefin fyrir sigur og ræður mestu hversu sterkur andstæðingurinn er. Noregur er í 34. sæti listans og því fékk Ísland hátt margfeldi fyrir að vinna þjóð sem er svo langt fyrir ofan á listanum.

Samkvæmt útreikningum á heimasíðu FIFA má gera ráð fyrir að sigurinn í gær færi Íslandi rúm 100 stig og að það hoppi úr 283 stigum í 395. Sá stigafjöldi mun aukast ef liðið nær annað hvort sigri eða jafntefli gegn Kýpverjum á þriðjudagskvöldið.

Það er þó erfitt að spá fyrir um stöðu Íslands á næsta lista því það mun af miklu leyti ráðast af gengi þeirra liða sem eru okkur næst á listanum. Miðað við núverandi stöðu myndi 395 stig duga í 89. sæti.

Norðmenn komust mjög ofarlega á styrkleikalista FIFA í fyrra en hafa svo fallið hratt niður á undanförnum mánuðum. Liðið var í 25. sæti í síðasta mánuði og er nú sem fyrr segir í 34. sæti. Noregur fékk vitanlega ekkert stig fyrir leikinn í gær en geta bætt stöðu sína með sigri á Slóveníu á þriðjudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×