Innlent

Óreglumaður í haldi grunaður um morð

Konan fannst látin í þessu húsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði. Lögregla hafði lokið vinnu á vettvangi seinni partinn í gær
Konan fannst látin í þessu húsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði. Lögregla hafði lokið vinnu á vettvangi seinni partinn í gær .Fréttablaðið/anton

Rúmlega tvítugur karlmaður er í haldi lögreglu, grunaður um að hafa ráðið vinkonu sinni bana með hníf í fyrrinótt.

Maðurinn kom á lögreglustöðina að Flatahrauni í Hafnarfirði skömmu eftir klukkan ellefu í gær, í afar annarlegu ástandi og nokkru uppnámi. Hann átti bágt með að gera sig skiljanlegan en lögreglumönnum tókst þó að greina að eitthvað hefði gerst og sáu ástæðu til að fara í kjölfarið heim til hans að Skúlaskeiði. Þar fannst rúmlega þrítug kona með áverka eftir eggvopn og reyndist hún látin.

Maðurinn var tekinn höndum en ástand hans var slíkt að ekki reyndist unnt að yfirheyra hann strax. Ljóst þykir að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Tekin verður ákvörðun um það í dag hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir honum.

Lögregla varðist allra frétta af málinu í gær umfram það sem fram kom í tilkynningu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var aðkoman á vettvangi ljót og mikið blóð í íbúðinni. Þar fannst hnífur sem talinn er hafa verið notaður til verksins. Hann hefur verið sendur í lífsýnarannsókn.

Enginn er skráður til heimilis í húsinu, sem hefur verið í eigu Arion banka síðan í nóvember. Sá sem nú er í haldi er sonur fyrri eigenda.

Konan og ætlaður banamaður hennar höfðu þekkst lengi og voru bæði vel þekkt hjá lögreglunni í Hafnarfirði vegna óreglu. Maðurinn hefur ítrekað komist í kast við lögin, þó einkum vegna minni háttar afbrota. Hann hlaut í fyrra skilorðsbundinn dóm fyrir ýmis brot.

stigur@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×