Fótbolti

Hrun hjá Helsingborg eftir að Alfreð fór frá félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er óhætt að segja að sænska liðið Helsingborg sakni íslenska landsliðsmannsins Alfreðs Finnbogasonar sem endaði lánsamning sinn hjá félaginu á dögunum og gekk til liðs við hollenska félagið Heerenveen. Helsingborg var á miklu skriði í síðustu leikjum Alfreðs en hefur nú tapað fyrstu fjórum leikjum sínum án hans.

Helsingborg datt í fyrrakvöld út úr forkeppni Meistaradeildarinnar eftir 0-2 tap á móti Celtic en sænska liðið tapaði leikjunum tveimur samanlagt. Helsingborg hefur aðeins skorað 2 mörk í leikjunum 4 síðan að Alfreð fór.

Alfreð skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í síðasta leik sínum með Helsingborg þegar liðið vann 7-2 stórsigur á Kalmar 12. ágúst síðastliðinn en það er einmitt síðasti sigur sænska liðsins.

Alfreð skoraði alls 7 mörk og gaf 2 stoðsendingar í síðustu 5 deildarleikjum sínum með Helsingborg og liðið vann 3 þeirra og tapaði aðeins einum. Á sama tíma var Alfreð einnig með 1 mark og 5 stoðsendingar í tveimur sigrum á pólska liðinu Slask Wroclaw í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Alfreð er enn í 2. sæti yfir markahæstu leikmenn sænsku deildarinnar með 12 mörk í 17 leikjum en Helsingborgar-liðið er nú komið alla leið niður í 5. sæti. Næstu lið eru skammt á eftir og því gæti liðið dottið fljótlega enn neðar breytist ekki gengi þess heima fyrir.

Helsingborg fékk tækifæri til að kaupa Alfreð frá Lokeren en dró lappirnar og missti af möguleikanum. Ef marka má gengi liðsins eftir brotthvarf íslenska landsliðsmannsins sjá þeir örugglega mikið eftir því.

Leikir Helsingborg eftir að Alfreð fór:

Sænska úrvalsdeildin:

18. ágúst Elfsborg-Helsingborg 2-1

25. ágúst Djurgården-Helsingborg 3-1

Forkeppni Meistaradeildarinnar:

21. ágúst Helsingborg-Celtic 0-2

29. ágúst Celtic-Helsingborg 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×