Innlent

Eitt stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar

Russell Crowe í hlutverki Nóa.
Russell Crowe í hlutverki Nóa. mynd/Paramount Pictures
Tökurnar á bandarísku myndinni Noah er eitt umfangsmesta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar og stærsta framleiðsla sem Hollywood hefur staðið fyrir hér á landi.

Tökum á Nóa er nú lokið og hefur framleiðsluhópurinn nú haldið vestur yfir haf. New York er næsti áningarstaður en þar munu tökur fara fram næstu vikur og mánuði.

„Nú þegar tökum á Íslandi er lokið, þá langar mig að þakka hinum frábæra íslenska framleiðsluhóp sem aðstoði okkur," segir Darren Aronofsky, leikstjóri Noah. „En um leið langar mig að þakka öllum Íslendingum fyrir gestrisni sína og þær frábæru viðtökur sem verkefnið okkar, Noah, fékk á Íslandi."

Þriðjungur kvikmyndarinnar var tekinn upp hér landi. Tökustaðir voru meðal annars: Djúpavatnsleið, Sandvík, Sandvíksklofi, Lambhagatjörn og Undirhlíðanáma við Kleifarvatn; Sandvíkurskarð, Stapahraun, Stampar, Hafursey, Reynisfjara, Raufarhólshellir, Leirhnjúkar, Hamragarðaheiði og Svartiskógur.

Darren Aronofsky, leikstjóri.
Rúmlega 220 manns komu að tökum Nóa hér á landi og voru íslendingar þar í meirihluta. Mikla skipulagningu þarf til að halda utan um fjölmennan hóp. Um 3.650 gistinætur voru bókaðar af hálfu framleiðslufyrirtækisins. Þá voru 30 jeppar teknir á leigu ásamt tíu smárútum og 75 bílum.

Til þess að halda bæði fólkinu og farartækjunum gangandi nýttu framleiðendur Nóa sér þjónustu rúmlega 300 smásöluaðila þar sem matur, eldsneyti og annað var keypt.

„Ísland er töfrum líkast," segir Aronofsky. „Okkur bauðst að taka upp á hreint út sagt ótrúlegum stöðum og fjölbreytileikinn var ótrúlegur. Ég þakka kærlega fyrir mig Ísland, og ég hlakka til að koma aftur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×