Innlent

DUST 514 og EVE tengjast í fyrsta sinn

BBI skrifar
Tölvuleikirnir EVE online og DUST 514 munu tengjast í fyrsta sinn eftir rétt rúma viku. Þá munu spilendur beggja leikjanna geta talað saman, skipulagt árásir og fleira í fyrsta sinn.

„Við erum mjög spennt fyrir þessari nýjustu viðbót við þróun DUST 514," segir Eldar Ástþórsson, fjölmiðlafulltrúi CCP og útskýrir að leikirnir hafi áður verið tengdir saman á sérstökum augnablikum, t.d. á sýningum og við prufanir. „Þetta verður hins vegar í fyrsta sinn sem leikirnir mætast með varanlegum hætti."

Tengingin verður mikilvægt skref í þróun DUST 514 en hún fer fram 21. ágúst næstkomandi. Leikurinn hefur verið í lokaðri prufukeyrslu að undanförnu og hafa aðeins tilteknir notendur aðgang að honum.

Viðtökur hafa verið góðar að sögn Eldars. „Það hafa verið gríðarlega mikil viðbrögð. Svona prufuaðgangur er nýttur til að sníða vankanta af leiknum. Svo við fáum viðbrögð af öllum toga. Sem er jákvætt og bendir til að fólk hafi ástríðu fyrir leiknum," segir Eldar.

Núna stendur yfir Gamescom sýningin í Köln, sem er ein stærsta tölvuleikjasýning sinnar tegundar í heiminum. Þar mun fyrirtækið CCP sýna leikina sína næstu daga og er umfjöllunar þaðan að vænta fljótlega. Sýningin stendur til 19. ágúst og gert er ráð fyrir að hátt í 300 þúsund manns mæti, þar af yfir fimm þúsund blaðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×