Innlent

Dómstólar misnota gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna

BBI skrifar
Ragnar Aðalsteinsson og tímarit Úlfljóts saman á mynd
Ragnar Aðalsteinsson og tímarit Úlfljóts saman á mynd
Lögmaðurinn Ragnar Aðalsteinsson sakar íslenska dómstóla um að mistúlka og misnota heimild til að úrskurða sakborninga í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Í nýjasta tölublaði Úlfljóts, tímarits laganema, skrifar hann grein ásamt lögfræðingnum Fanney Hrund Hilmarsdóttur þar sem íslensk dómaframkvæmd er m.a. borin saman við dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins.

Í íslenskum rétti eru ýmiss konar heimildir til að úrskurða mann í gæsluvarðhald. Þær eru allar bundnar sérstökum skilyrðum, t.d. að sakborningur muni torvelda rannsókn máls eða muni reyna að komast úr landi. Ein heimildin er frábrugðin öðrum þar sem skilyrði fyrir beitingu hennar tengjast ekki rannsókn málsins, heldur á hún við ef brot er þess eðlis að varðhald telst „nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna". Hana má finna í 2. málsgrein 95. grein sakamálalaga. Til að beita henni þarf sterkari grun um afbrot en hinar heimildirnar áskilja og brotið þarf að vera alvarlegra.

Ragnar telur dómstóla beita ákvæðinu allt of oft. Hann rekur tölulegar upplýsingar úr Hæstarétti en árið 2011 voru til að mynda 32% af öllum gæsluvarðhaldsúrskurðum byggð á þessari heimild. Fyrstu fimm mánuði ársins 2012 voru 45% gæsluvarðhaldsúrskurða Hæstaréttar byggðir á heimildinni. Ragnar telur að heimildina eigi aðeins að nota í algerum undantekningartilvikum og vísar um það í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ragnar telur að reglan eigi við þegar almannahagsmunir eru í raunverulegri hættu og gæsluvarðhald er eina leiðin til að vernda þá. Hann segir að Hæstiréttur velti sjaldnast fyrir sér hvað nákvæmlega felist í almannahagsmunum heldur noti regluna með einfaldri vísan til „eðlis máls" eða „grófleika brotsins". Ekki sé endilega litið til þess hvort almannahagsmunir séu í raunverulegri hættu.

Ragnar veltir fyrir sér dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar segir hann aðeins byggt á sambærilegri heimild í algerum undantekningartilvikum þegar raunveruleg hætta er á röskun á almannafriði. Rétt er að taka fram að orðalag í Mannréttindasáttmálanum er ofurlítið frábrugðið íslenskum lögum en Ragnar virðist leggja það nokkurn veginn að jöfnu. Hann segir að íslensk dómaframkvæmd rími engan veginn við Mannréttindadómstólinn.

Sératkvæði Jóns Steinars

Ragnar tekur fram að örfáir íslenskir dómarar virðast hafa tekið eftir þessari óhóflegu notkun heimildar til að beita gæsluvarðhaldi vegna almannahagsmuna. Í sératkvæðum hefur hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson m.a. bent á misskilning dómstóla á hugtakinu almannahagsmunir. „Jón Steinar fetar með þessu þá braut sem Mannréttindadómstólinn hefur farið," segir Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×