Innlent

Nýmæli í úthlutun listamannalauna

BBI skrifar
Bryddað verður upp á nýmælum við úthlutun starfslauna listamanna fyrir árið 2013. Annars vegar geta fleiri en einn listamaður sótt um starfslaun vegna samstarfsverkefna. Hins vegar getur einn listamaður sótt um laun í mismunandi sjóði ef verkefnið fellur í fleiri sjóði en einn. Frá þessu er greint á vef menntamálaráðuneytisins.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra samþykkti breytingartillögurnar að tillögu stjórnar listamannalauna. Breytingarnar miða að því að mæta þörfum listamanna er kjósa að vinna sameiginlega að samstarfsverkefnum.

Stjórn listamannalauna tekur eftirfarandi dæmi til að skýra málið frekar: Tónlistarmaður, sem hvort tveggja semur tónlist og flytur, getur í einni og sömu umsókn sótt um starfslaun fyrir skilgreindan hluta verkefnisins til launasjóðs tónskálda og annan skilgreindan hluta til launasjóðs tónlistarflytjenda. Á sama máta getur listamaður, sem er rithöfundur og myndlistarmaður, sótt um starfslaun fyrir hluta verkefnis í launasjóð rithöfunda og annan hluta verkefnisins í launasjóð myndlistarmanna. Tónlistarhópur getur sótt um starfslaun til að vinna að samstarfsverkefni, frumsköpun og flutning eða öðru hvoru. Tvíeyki eða hópur myndlistarmanna getur sótt um starfslaun til samstarfsverkefnis í launasjóð myndlistarmanna. Hópur listamanna úr mismunandi listgreinum getur sótt um starfslaun til samstarfsverkefnis í þá launasjóði sem um er að ræða í hverju tilviki fyrir sig.

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um starfslaun listamanna fyrir 2013. Frestur til að sækja um rennur út 25. september næstkomandi klukkan 17:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×