Innlent

Undirbúningur fyrir haustþingið hafinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd/Arnþór
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er byrjaður að undirbúa sig af fullum krafti fyrir komandi þing sem verður sett þann 11. september næstkomandi. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti Ögmundur fjölda mála sem hann lagði fram til kynningar á síðastliðnu vorþingi.

Til að mynda er um að ræða breytingu á lögreglulögum. „Það er það sem við erum búin að vera með á okkar vinnsluborði, að fækka lögregluumdæmum úr fimmtán í átta og sýslumannsumdæmum úr 24 í átta. En þetta er lagabreyting sem kæmi ekki til framkvæmdar fyrr en í ársbyrjun 2015," segir Ögmundur.

Þá stendur líka til að gera breytingar á lögum sem fela í sér að réttarstaða lífsskoðunarfélaga, eins og Siðmenntar, verði aukin þannig að þau verði svipuð og réttindi trúfélaga. „Mér finnst mjög mikilvægt að það frumvarp nái fram að ganga og verði að lögum," segir Ögmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×