Innlent

Deilt um sumarhús í Heiðmörk

Erla Hlynsdóttir skrifar
Við Helluvatn
Við Helluvatn Mynd/Stöð 2
Um tuttugu sumarhúsaeigendur við Elliðavatn og Helluvatn þurfa að yfirgefa húsin fyrir áramót eftir að Orkuveitan framlengdi ekki leigusamning.

Við sögðum frá því í fréttum Stöðvar 2 á föstudag að sumarhúsaeigendur á svæðinu hafa stofnað félag og ætla að verjast Orkuveitunni. Þá var rætt við Rögnu Þorsteins sem á hús sem foreldrar hennar eignuðust þegar hún var árs gömul, og var byggt árið 1928. Rögnu svíður að þurfa ða yfirgefa æskuheimilið.

Það var í lok síðasta árs sem sumarhúsaeigendurnir fengu bréf frá Orkuveitunni að leigusamningur rynni endanlega út 1. janúar 2013. Eigendurnir leituðu réttar síns hjá Kærunefnd húsamála sem enn hefur ekki komist að niðurstöðu í málinu.

Upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, Eiríkur Hjálmarsson, segir að leigusamningur verði ekki lengur framlengdur, því samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá árinu 2001 sé svæðið skilgreint sem vatnsverndarsvæði. Sem landeigandi þurfi Orkuveitan að fara eftir skipulaginu og vegna þess sé íbúabyggðin víkjandi. Íbúum var fyrst tilkynnt árið 2004 að fyrirhugað væri að framlengja ekki samninginn.

Eiríkur segir það ekki hafa komið á óvart að húsaeigendurnir væru ósáttir.

„Alls ekki. Þessir hagsmunir íbúanna eru mjög skiljanlegir. Það þarf hins vegar að vega þá á móti almannahagsmununum af vatnsverndinni."

Að samningstíma loknum, hvað verður um húsin? Verða þau rifin?

„Orkuveita Reykjavíkur fer ekki fram með neinu offorsi í þessu máli. Við viljum reyna að leysa málin í sátt."

En ef það nást ekki sættir?

„Maður gerir sér alltaf vonir um sættir þegar slíkt viðfangsefni er á borðinu og ég ætla ekki að gera mér neitt fyrirfram í þeim efnum."

Gæti komið til þess að það þyrfti hreinlega að bera íbúana út?

„Ég vil ekkert segja um það á þessari stundi. Auðvitað leitum við sátta í svona málum. Það er alveg ljóst."



Tengdar fréttir:

Orkuveitan framlengir ekki leigusamninga




Fleiri fréttir

Sjá meira


×