Innlent

Hlýjasti dagur sumarsins í borginni

BBI skrifar
Mynd/Róbert
Hitinn í borginni náði 20 stigum í dag í fyrsta sinn í sumar. Dagurinn er enn ekki allur og því gæti hitinn skriðið enn hærra.

Þó einmuna veðurblíða hafi leikið við Reykvíkinga í sumar hefur hitinn í sjálfu sér ekki farið mjög hátt. Í dag gerðist það í fyrsta sinn að hann kæmist upp í 20 gráðurnar. Til samanburðar er hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík 24,8 stig, en það var 11. ágúst 2004.

„Ef maður horfir yfir allt höfuðborgarsvæðið getur maður reyndar séð hærri tölur," segir veðurfræðingur Veðurstofunnar. Á Kjalanesi var hitinn t.d. 22 stig í dag og 21,1 í Korpu. „En hitinn hefur ekki mælst hærri á kvikasilfurmælinum á Veðurstofuhúsinu í sumar."

Veðurfræðingar Veðurstofunnar búast við að svipað veður verði á morgun þó það gæti orðið ívið svalara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×