Innlent

Dagur býður öllum í vöfflur

BBI skrifar
Frá vöffluveislunni í fyrra.
Frá vöffluveislunni í fyrra. Mynd/Dagur
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, býður í vöfflur heim til sín á menningarnótt.

Vöffluveislan á Óðinsgötu 8b er árviss viðburður í heimilishaldi Dags. „Ég man hreinlega ekki hvenær við byrjuðum á þessu," segir hann en iðulega er glatt á hjalla og margt um manninn því allt að 1200 manns líta við. Hann segir því að fólk verði að sýna þolinmæði í þeim 102 ára stiga sem liggur upp í íbúðina.

Við verðum að baka á svona tíu vöfflujárnum og erum búin að læra miklar kúnstir við að tengja þetta í mismunandi rafmagnstengla í húsinu svo það slái ekki allt út," segir Dagur.

Dagur segir að allir sem hafa hug á að gæða sér á vöfflum með rjóma og sveskjusultu séu velkomnir en auglýsir sérstaklega eftir hljóðfæraleikurum og söngfólki. „Venjulega koma tónlistamenn og spila á svölunum hjá okkur. Nú eru hins vegar fastagestirnir okkar uppteknir í öðrum atriðum og þess vegna vantar áhugasama hljóðfæraleikara," segir hann.

Herlegheitin hefjast um tvö leytið að Óðinsgötu 8b sem stendur við Óðinstorg í Þingholtunum. „Það er víst besta veðurspáin fyrir laugardaginn á Óðinstorgi svo ég hvet alla til að kíkja við," segir Dagur að lokum en vöffluveislan mun standa til fjögur eða þangað til deigið klárast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×