Innlent

Geir Haarde í fjölmiðla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, mun stjórna spjallþætti á ÍNN í vetur. Hann er einn þriggja nýrra þáttastjórnenda á stöðinni en hinir eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Randver Þorláksson, fyrrverandi Spaugstofumaður. Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóri ÍNN er ánægður með viðbótina og bendir á að Geir og Sigmundur Davíð séu báðir reyndir fjölmiðlamenn.

Þótt Geir verði á dagskrá klukkan ellefu á sunnudagsmorgnum segir Ingvi Hrafn að þátturinn sé ekki settur til höfuðs þeim Sigurjóni M. Egilssyni, sem er með vinsælan spjallþátt á Bylgjunni klukkan tíu og Agli Helgasyni, sem er á RÚV eftir hádegið.

„Nei, þetta er bara viðbót við flóruna. SME byrjar alltaf klukkan tíu og menn eru ansi langt gengnir eftir klukkutíma þannig að ég tel að það sé pláss," segir Ingvi. Geir verði svo búinn áður en hádegisfréttir byrja og Egill fer í loftið.

Geir Haarde var blaðamaður á Morgunblaðinu áður en stjórnmálaferill hans hófst og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var einn af stjórnendum Kastljóssins í Ríkisútvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×