Innlent

Fjórða Hollywoodmyndin líklegast tekin á Íslandi í haust

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Russel Crowe er staddur hér á landi við tökur á Noah. Þessi mynd var tekin þegar hann lenti á Reykjavíkurflugvelli í júlí.
Russel Crowe er staddur hér á landi við tökur á Noah. Þessi mynd var tekin þegar hann lenti á Reykjavíkurflugvelli í júlí. mynd/ johann k. johannsson.
Miklar líkur eru á að fjórða Hollywood myndin verði tekin upp hér á landi í október. „Það eru sterkar líkur á því," segir Leifur Dagfinnsson, hjá True North, í samtali við Vísi. Hann segir þó ekkert hafa verið ákveðið endanlega. Þess vegna sé ekki tímabært að tjá sig um það um hvaða mynd er að ræða.

Tökur á myndinni Noah ganga vel. „Það er mikið myndað og allur dagurinn nýttur. Þannig að ég veit ekki betur en að það sé mikil ánægja með það," segir hann. Í gærkvöldi kom Emma Watson til landsins eins og greint var frá á Vísi í morgun. Russel Crowe og Jennifer Connelly hafa verið hér í nokkrar vikur en Anthony Hopkins er ekki á landinu. Tökur fóru fram við Kleifarvatn en tökuliðið er núna farið þaðan. Leifur segist ekki geta sagt hvar tökur fari fram nákvæmlega núna. „Þau eru á Suðurlandi," segir hann.

Tökur á Oblivion fóru fram hér á landi í júní og var Tom Cruise staddur hér af því tilefni. Þá fara tökur fram á mynd Bens Stiller í haust. Leifur segir að undirbúningur fyrir þær gangi vel, en greint var frá því fyrr í sumar að Stiller hefði meðal annars verið í Stykkishólmi að skoða tökustaði.

Því er við þetta að bæta að Ridley Scott, leikstjóri myndarinnar Promotheus, tilkynnti í gær að gerðar yrðu tvær framhaldsmyndir. Promotheus var tekin upp hér á landi en ekkert liggur fyrir um það hvort framhaldið verði tekið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×