Innlent

Skortur á lagaheimildum - undirheimaforingjar ganga lausir

Þorbjörn Þórðarson. skrifar
Lögreglan getur ekki aðhafst gegn nokkrum stórum undirheimaforingjum vegna skorts á lagaheimildum en mennirnir eru allir taldir stýra umfangsmikilli skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglan telur sig geta beitt sér með forvirkum rannsóknarheimildum, eins og eftirliti og hlerunum án þess að til staðar sé grunur um afbrot.

Árið 2011 var gott ár fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Hún sló í gegn á Facebook, fékk þrjár tilnefningar til Nýsköpunarverðlaunanna og traust til hennar mældist meira en nokkru sinni eða 83 prósent, en þessar upplýsingar koma fram í ársskýrslu embættisins, sem kom út í vikunni. Lögreglan stendur samt frammi fyrir mörgum erfiðum áskorunum.

Lögreglunni hefur gengið vel að leysa upp erlend glæpagengi. Meðal annars voru tvö pólsk gengi leyst upp í fyrra.

Það sem gengið hefur erfiðar er að hafa hendur hári innlendra höfuðpaura sem grunaðir eru um að stýra umfangsmiklum og skipulögðum fíkniefnaviðskiptum.

Eitt dæmi sem nefnt hefur verið í samtölum við lögreglumenn er nafngreindur maður sem á fjölmargar fasteignir á höfuðborgarsvæðinu þar sem menn hafa verið gripnir við ræktun kannabiss en alltaf er gefin sama skýringin. Að ræktunin hafi verið hjá leigutaka viðkomandi húsnæðis, án vitundar eigandans. Leigusalarnir styðja slíka frásögn, oft á grundvelli samkomulags sem þegar hefur verið gert. Þessi einstaklingur er talinn einn umsvifamesti maðurinn í undirheimum Reykjavíkur þegar skipulögð glæpastarfsemi er annars vegar, en hann hefur aldrei verið ákærður eða hlotið dóm.

Þessir menn eru því stikkfrí í undirheimum. Ekkert festist á þá og lögreglan getur ekkert aðhafst því hún getur ekki rannsakað brot nema hafa grun um refsiverða háttsemi eða kæru.

Lögreglan hefur bent á að ef hún hefði forvirkar rannsóknarheimildir, til dæmis heimildir til að fylgjast með meintum höfuðpaurum án vitundar þeirra, gæti hún haft hendur í hári þeirra og komið fyrr í veg fyrir afbrot. Lögregluembætti í nágrannalöndum hafa svipaðar heimildir en stjórnvöld hafa ekki svarað ítrekuðu kalli eftir auknum heimildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×