Innlent

Nígerískur karlmaður tekinn í Leifsstöð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. ágúst.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. ágúst.
Nígerískur karlmaður var handtekinn við komu til landsins á sunnudag. Hann var umsvifalaust úrskurðaður í gæsluvarðhald til 8. ágúst en Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn í gær.

Maðurinn, sem er 38 ára gamall, var að koma frá Bologna á Ítalíu. Fyrst þegar hann var handtekinn sagðist hann ekki vera með skilríki. Þegar hann var spurður aftur vísaði hann á ökuskirteini en sagðist hafa eyðilagt önnur skilríki. Þegar betur var að gáð fundust skilríki í vélinni sem hann kom með til landsins en þau voru öll fölsuð.

Í gæsluvarðhaldskröfunni sagði lögreglan að rökstuddur grunur léki á því að kærði gæfi rangar upplýsingar um það hver hann er, enda hafi hann á engan hátt getað gert grein fyrir sér með sannanlegum hætti og ferðasaga hans væri ótrúverðug. Lögreglustjóri teldi því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans væri til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun. Á þau rök féllust bæði Héraðsdómur Reykjaness og Hæstiréttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×