Innlent

Öruggt að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Öruggt er fyrir konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingu að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Öruggt er fyrir konur í eðlilegri meðgöngu og fæðingu að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. mynd/ afp.
Öruggt er fyrir konu í eðlilegri meðgöngu og fæðingu að velja að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þetta sýnir ný rannsókn sem Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir HSu, gerði sem hluta af meistaranámi í ljósmóðurfræðum frá Háskóla Íslands.

Kveikjan að rannsókninni varð í kjölfar kreppunnar eftir að ljóst varð að breyting yrði á þjónustustigi fæðingadeildar HSu. Haustið 2009 kom í ljós að ekki fengist áframhaldandi fjármagn til HSu til að halda áfram vöktum fæðinga- og svæfingarlækna. Frá og með áramótunum 2009-2010 voru vaktir þessara lækna aflagðar og tilkynnt að um áramótin yrði breyting á þjónustustigi á barneignarþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þjónustustig fæðingadeildarinnar breyttist þannig að einungis konum í eðlilegri meðgöngu og fæðingu áttu kost á því að fæða á HSu.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru að útkoma úr fæðingum á HSu árið 2010 var góð þegar litið er til sambærilegra fæðingarstaða hérlendis og erlendis. Mikill meirihluti kvennanna fæddi eðlilega eða 92%. Aðeins 3,6% þeirra fæddu með keisaraskurði og tíðni áhaldafæðinga var 4,5%. Flutningstíðni kvenna á hærra þjónustustig var sambærileg við flutningstíðni í öðrum sambærilegum rannsóknum. Útkoma barna í rannsókninni var einnig góð.

Ítarlega er fjallað um rannsóknina á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×