Innlent

Skemmtilegustu myndirnar á skemmtilegustu götunni

Erla Hlynsdóttir skrifar
Íslenskur ljósmyndari seldi veraldlegar eigur sínar , nema ljósmyndavélina, og lagði upp í bakpokaferðalag um Asíu. Hann er nú að opna ljósmyndasýningu undir berum himni.

Baldur Kristjánsson ljósmyndari naut liðsinnis félaga sinna í dag við að setja upp ljósmyndasýninguna Austur fyrir fjall, sem opnar í kvöld á Skólavörðustíginum.

Það er fyrir tveimur árum sem Baldur fór í ferðalag um Asíu þar sem hann sameinaði áhugamálin tvö, ferðalög og ljósmyndun.

Myndirnar á sýningunni eru það sem kallast umhverfisportrett, það er myndir af fólki í sínu eigin umhverfi.

Uppáhalds myndina tók Baldur á Killing Fields í Kambódíu þar sem framin voru hrottaleg fjöldamorð.

„Hérna megin við girðinguna var ég staddur. Þarna er bara svona minningarvottur um þessi fjöldamorð, fullt af hauskúpum og bara hræðilegir hlutir. Og svo sé ég bara þessa litlu stelpu þarna hinum megin við. Ég veit ekkert hvað hún var að gera þarna. Í raun veit ég oft ekkert hvað er um að vera á myndunum sjálfum. En hún stóð einhvern vegin bara og kíkti yfir girðinguna og ég náði að smella af einni mynd áður en hún bara labbaði í burtu," segir Baldur.

Myndirnar á sýningunni eru það sem kallast umhverfis-portret. Mynd sem Baldur tók á Indlandi er líka í uppáhaldi.

„Manni fannst eitthvað svo merkilegt, þó Indland sé lýðræðisríki og allt það, að koma á svona staði þar sem kommúnisminn er bara dáður og dýrkaður," segir hann.

Þetta er fyrsta sýning Baldurs. Hann er með vinnustofu á Skólavörðustígnum og það blasti því við að setja upp sýningu þar.

„Mér fannst bara eins og þetta bara rímaði. Skemmtilegasta gata bæjarins, skemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið í og skemmtilegustu myndir sem ég hef tekið. Þetta passaði bara," segir Baldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×