Innlent

Getur ekki séð ósamræmi hjá Hæstarétti

BBI skrifar
Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst.
Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst. Mynd/GVA
Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, getur ekki séð að Hæstiréttur sé ósamkvæmur sjálfum sér þegar hann ákveður að ógilda ekki forsetakosningarnar öfugt við stjórnlagaþingskosningarnar á sínum tíma.

Ýmsir hafa orðið til að benda á ósamræmi í ákvörðunum Hæstaréttar frá því í gær, þar sem forsetakosningarnar voru ekki ógiltar, og ákvörðun réttarins þar sem stjórnlagaþingskosningarnar voru ógiltar. Þeirra á meðal eru Ragnar Aðalsteinsson og Þorvaldur Gylfason. Í ákvörðun gærdagsins tók rétturinn undir að ágalli hefði verið á kosningunum en þar sem hann hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu þeirra gat hann ekki valdið ógildingu. Ekkert var minnst á þessa reglu þegar stjórnlagaþingskosningarnar voru ógiltar á sínum tíma vegna nokkurra ágalla.

Bryndís var í landskjörstjórn á þeim tíma þegar stjórnlagaþingskosningarnar voru ógiltar. Hún var ein af þeim sem sögðu af sér í kjölfarið. Hún tekur fram að á sínum tíma hafi hún verið ósammála ákvörðun Hæstaréttar. Þrátt fyrir það finnst henni hæpið að halda því fram að rétturinn sé ósamkvæmur sjálfum sér.

„Ef við bara horfum á þetta algerlega kalt. Annars vegar erum við með kosningu þar sem Hæstiréttur segir að almennum leynileika hafi verið áfátt og auðvelt að sjá hvað fólk kaus. Hins vegar erum við með kosningar þar sem fáeinir einstaklingar fengu að kjósa með hjálp aðstoðarmanna sinna. Í fyrra tilvikinu finnst mér augljóst að slíkir ágallar séu líklegri til að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu kosninga en í síðara tilvikinu," segir Bryndís og getur því ekki séð ósamræmi í ákvörðunum Hæstaréttar. Margt við þessar tvennar kosningar sé ekki sambærilegt.

Bryndís tekur fram að niðurstöður í málum sem þessum eru alltaf háðar mati. „Þess vegna er voðalega auðvelt að fara í þessar stellingar og rífa Hæstarétt niður fyrir þetta," segir hún og finnst alvarlegt fólk hlaupi að ályktunum að óathuguðu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×