Innlent

Ekki í herferð gegn einkabílnum

BBI skrifar
"Við erum með einhver ódýrustu bílastæði í hinum vestræna heimi,“ segir Karl Sigurðsson.
"Við erum með einhver ódýrustu bílastæði í hinum vestræna heimi,“ segir Karl Sigurðsson.
Aðspurður segir Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, að Besti flokkurinn sé ekki í herferð gegn einkabílnum. Borgarráð samþykkti í morgun umtalsverða hækkun á stöðumælagjöldum í Reykjavík frá og með næsta mánudegi.

„Við erum í herferð sem snýr að því að leiðrétta jafnvægi milli samgöngumáta í borginni," segir hann og vill meina að jafnvægið hafi hallað á gangandi vegfarendur og hjólandi. Undanfarið hefur borgarstjórn reynt að gera þeim samgöngumátum hærra undir höfði, m.a. með því að gera neðri hluta Laugarvegs að göngugötu.

Karl telur að þegar allt kemur til alls verði borgarbúar ánægðir með hækkanirnar þar sem auðveldara verður að fá stæði í miðbænum. „Flæði bifreiða í bílastæðum í miðborginni er of mikið. Mettunin er slík að það er talað um 90-110% nýtingu stæða, fólk að leggja uppá gangstéttir," segir hann og útskýrir að ásættanlegt væri ef 85% stæðanna væru almennt í notkun.

Með gjaldhækkununum er meiningin að draga úr fjölda bifreiða í borginni. Karl minnir aftur á að þrátt fyrir að hækkanirnar séu töluverðar í prósentum hækki krónutalan ekki mikið. „Við erum með einhver ódýrustu bílastæði í hinum vestræna heimi," segir hann.

Karl er sannfærður um að þrátt fyrir veðráttuna á landinu og hæðótt landslag í borginni geti fólk auðveldlega ferðast á hjóli eða strætisvögnum. „Okkar meirihluti er að reyna að ýta undir þann ferðamáta. Nú erum við t.d. búin að gera samning við ríkið um árlegt framlag upp á tæpan milljarð króna fyrir Strætó," segir hann.

Hann minnir einnig á að gjöld hafi ekki hækkað í bílastæðahúsum og vill beina umferðinni þangað. „Það er fullt af þeim í borginni og þau eru illa nýtt," segir hann.


Tengdar fréttir

Verulegar hækkanir á bílastæðagjöldum

Verulegar hækkanir verða á bílastæðagjöldum á þremur gjaldsvæðum í Reykjavíkurborg í næstu viku. Gjaldsvæði 1 mun kosta 225 krónur í stað 150 krónur. Gjaldsvæði 2 og 4 mun fara úr 80 krónum í 120 krónur. Um er að ræða skammtímasvæði sem eru miðsvæðis. Hækkunin gildir frá og með mánudeginum 30. júlí. Engin hækkun verður á gjaldsvæði 3, sem er ætlað sem langtímastæði, en á því svæði er m.a. hægt að kaupa miða á u.þ.b. 1.900 krónur sem gildir í tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×