Innlent

Verulegar hækkanir á bílastæðagjöldum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hækkun verður á bílastæðagjöldum fyrir öll helstu bílastæði miðsvæðis.
Hækkun verður á bílastæðagjöldum fyrir öll helstu bílastæði miðsvæðis. mynd/ anton.
Verulegar hækkanir verða á bílastæðagjöldum á þremur gjaldsvæðum í Reykjavíkurborg í næstu viku. Gjaldsvæði 1 mun kosta 225 krónur í stað 150 krónur. Gjaldsvæði 2 og 4 mun fara úr 80 krónum í 120 krónur. Um er að ræða skammtímasvæði sem eru miðsvæðis. Hækkunin gildir frá og með mánudeginum 30. júlí. Engin hækkun verður á gjaldsvæði 3, sem er ætlað sem langtímastæði, en á því svæði er m.a. hægt að kaupa miða á u.þ.b. 1.900 krónur sem gildir í tvær vikur.

Þá lengist gjaldskyldutími á laugardögum á gjaldsvæðum 1, 2 og 4 en nýr tími verður frá 10.00-16.00 í stað 10.00-13.00 áður. Aðrir gjaldskyldutímar haldast óbreyttir. Opnunartími bílahúsa Bílastæðasjóðs hefur líka verið lengdur fyrir skammtímagesti og nú opna þau sjö á morgnana og eru opin til miðnættis. Nýr opnunartími gildir alla daga ársins í öllum bílahúsum Bílastæðasjóðs, en þau eru m.a. staðsett við Laugaveg, Hverfisgötu, Seðlabankann, Skúlagötu, Vesturgötu og í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Þá hafa verið sett upp hjólastæði fyrir reiðhjól í öllum bílahúsunum og er ókeypis að nýta sér þau stæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×