Innlent

Þingmenn VG tortryggnir gagnvart áformum Nubos

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna.
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna.
Formaður þingflokks Vinstri grænna segir að almennt séu þingmenn flokksins tortryggnir í garð uppbyggingar Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum, ekki síst vegna misvísandi yfirlýsinga umboðsmanns hans hér á landi.

Til stendur að félagið að Gáf ehf. í eigu sex sveitarfélaga kaupi jörðina Grímsstaði á Fjöllum af landeigendum og geri síðan langtímaleigusamning við félag Nubos gegn staðgreiðslu leiguverðsins.

Þetta er háð því að iðnaðarráðuneytið samþykki umsókn félags Nubo um ívilnun vegna nýfjárfestingar á Íslandi, en samkvæmt lögum er iðnaðarráðherra heimilt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að gera samninga um aðkomu ríkisins vegna nýfjárfestinga.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, virðist líta svo á að ríkisstjórnin hafi í síðasta mánuði heimilað að samþykkja umsókn félags Nubos, en þá samþykkti ríkisstjórnin aðeins stofnun íslensks félags í eigu Nubo.

Engin ákvörðun var hins vegar tekin um ívilnun á þessum ríkisstjórnarfundi og ráðherrar sem fréttastofan hefur náð tali af líta ekki svo á að ríkisstjórnin hafi veitt slíka heimild.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna, segir að málið hafi ekki verið rætt formlega í þingflokknum en þó sé nokkur anstaða við áformin.

Yfirlýsingar talsmanns setja strik í reikninginn

„Þetta hefur nú ekki verið rætt eða gerðar neinar samþykktir um þetta í þingflokknum með formlegum hætti en ég held að almennt séu þingmenn Vinstri grænna mjög tortryggnir í garð þessa verkefnis sérstaklega vegna þess hvað talsmaður þessa kínverska fyrirtækis hefur verið margsaga um framgang þess og þær hugmyndir sem eru uppi," segir Björn Valur, en þar er hann að vísa til Halldórs Jóhannssonar, sem er ráðgjafi Nubo hér á landi.

Björn Valur segir það rétt að engin ákvörðun hafi verið tekin um að samþykkja umsókn félags Nubo um ívilnun vegna nýfjárfestinga og þannig samþykkja að veita félaginu undanþágu.

„Það hefur engin undanþága verið veitt og engar fyrirætlanir um slíkt í undirbúningi. Það eina sem hefur gerst er að kínverska fyrirtækið hefur fengið heimild til að stofna félag hér á landi," segir Björn Valur en þar er hann að vísa til þess að ríkisstjórnin hafi fjallað um stofnun slíks félags í síðasta mánuði.

Eins og komið hefur fram er umsókn félags í eigu Nubo um ívilnun vegna nýfjárfestinga óafgreidd í iðnaðarráðuneytinu, en þegar hefur nefnd, skipuð fulltrúum þriggja ráðuneyta á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, mælt með því að umsóknin verði samþykkt af ráðherra. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×