Innlent

Þeir sem misstu af veiðunum fá uppbót

BBI skrifar
Mynd/Stefán
Þeir sem töldu að strandveiðar á svæði A væru óheimilar í dag og réru ekki fá í staðinn viðbótardag til strandveiða í ágúst mánuði.

Strandveiðar á svæðinu áttu að stöðvast í dag en vegna tæknilegra mistaka birtist auglýsing þar að lútandi ekki í Stjórnartíðindum með þeim afleiðingum að veiðarnar voru áfram heimilar. Einhverjir áttuðu sig á því og sigldu en aðrir sátu grandlausir heima.

Ný auglýsing hefur verið birt þess efnis að strandveiðarnar verði óheimilar frá og með morgundeginum. Þeir sem héldu til sjós í dag fá að ljúka 14 tíma veiðiferð. Þeir sem misstu af deginum fá aftur á móti aukadag í ágúst. Skilyrði þess eru að viðkomandi hafi verið á strandveiðum í júlí en ekki róið í dag.

Með þessu er komið til móts við sjómenn og líklega komið í veg fyrir allar mögulegar skaðabótakröfur vegna mistakanna.


Tengdar fréttir

Strandveiðar heimilar í dag fyrir mistök

Strandveiðar voru óvart heimilar í dag á svonefndu A svæði vestanmegin á landinu. Sjávarútvegsráðuneytið hafði auglýst að strandveiðum yrði lokað á svæðinu frá og með deginum í dag. Eitthvað virðist hins vegar hafa farið úrskeiðis í samskiptum ráðuneytisins og starfsmanna Stjórnartíðinda með þeim afleiðingum að auglýsingin birtist ekki í B-deild Stjórnartíðinda. Auglýsingin tók því ekki gildi í dag og um leið og sjómenn urðu þess áskynja þustu þeir aftur út á miðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×