Innlent

Strandveiðar heimilar í dag fyrir mistök

BBI skrifar
Strandveiðar voru óvart heimilar í dag á svonefndu A svæði vestanmegin á landinu. Sjávarútvegsráðuneytið hafði auglýst að strandveiðum yrði lokað á svæðinu frá og með deginum í dag. Eitthvað virðist hins vegar hafa farið úrskeiðis í samskiptum ráðuneytisins og starfsmanna Stjórnartíðinda með þeim afleiðingum að auglýsingin birtist ekki í B-deild Stjórnartíðinda. Auglýsingin tók því ekki gildi í dag og um leið og sjómenn urðu þess áskynja þustu þeir aftur út á miðin.

Ráðuneytið hefur nú gefið út nýja auglýsingu um að veiðar á svæðinu stöðvist frá og með morgundeginum en svæðið nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi norður til Súðavíkur. Starfsmenn Fiskistofu gera ráð fyrir því að vegna þessara mistaka muni veiðast of mikið á svæðinu, þ.e. aflinn verði meiri en aflaheimildir í júlímánuði á svæðinu gera ráð fyrir.

Þessi mistök munu eflaust bitna illa á einhverjum samviskusömum sjómönnum sem hættu veiðunum í gær og drifu sig í frí án þess að vakta Stjórnartíðindi. Þeir vissu því ekki að veiðarnar yrðu framlengdar í einn dag og misstu þar með af dagsafla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×