Innlent

Vill gera dómara afturreka

BBI skrifar
Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason.
Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, viðraði þá hugmynd á bloggi sínu í gær hvort íslenskir dómarar ættu að verða leystir frá störfum ef dómar þeirra reyndust rangir fyrir alþjóðlegum dómstólum.

Í gær féll dómur í Mannréttindadómstól Evrópu um að íslenska ríkið hefði brotið mannréttindi á tveimur blaðamönnum með því að dæma þær skaðabótaskyldar vegna ummæla sem birtust í fréttum þeirra. Þorvaldur telur að íslenskir dómarar myndu vanda sig betur og dómarnir batna ef sjálfir dómararnir ættu á hættu að vera leystir frá störfum ef dómar þeirra fælu í sér mannréttindabrot.

Í athugasemdakerfi við færsluna heldur Þorvaldur því fram fullum fetum að Hæstiréttur sé ekki hæstráðandi dómstóll á Íslandi. Í heimsvæðingunni felist að þjóðir heims verði að taka tillit hver til annarrar. Þar sem Ísland hafi skuldbundið sig til að virða alþjóðasamninga um mannréttindi séu alþjóðlegar úrskurðarnefndir æðri Hæstarétti þó alþjóðlegar stofnanir geti ekki sent herlið til Íslands til að framfylgja úrskurðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×