Innlent

Slökkviliðsstjóri hefur áhyggjur af þurrkum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Selfoss.
Selfoss.
Slökkviliðsstjórinn í Árnessýslu hefur vaxandi áhyggjur af langvarandi þurrkum á Suðurlandi. Hann segir slökkviliðið vera skíthrætt við einnota grill og önnur ný tæki sem geta verið mjög varasöm úti í náttúrunni.

Mjög þurrt hefur verið á landinu í sumar og víða á Suðurlandi má sjá gulnuð tún og skraufþurra akra. Bændur hafa miklar áhyggjur af þessu vegna uppskerunnar en slökkviliðið í árnessýslu hefur einnig vaxandi áhyggjur vegna hættu á sinueldum á svæðinu.

„Við sjáum og heyrum um þessa elda í borgarfirði og upp undir snæfellsnesi og svo fengum við í gær lítið skot, upp við Árnes, sem slökkviliðið réði nú ágætlega við en jú þessi þurrkar hafa óneitanlega sett okkur í svona stellingar," segir Kristján Einarsson.

Hann segir slökkviliðið hafa reynt að byggja sig upp af búnaði með tilliti til sinu og gróðurelda, þá séu bændur duglegir að koma með haugsugur til að dæla vatni á elda og svo sé vatnstunna landhelgisgæslunnar mikil hjálp.

„Við erum með um sjö þúsund bústaði hér í árnessýslu og fólk er að girða og það verður mikil sina og þetta er alltaf yfirvofandi að þetta gæti komist í þetta eldur og þá er skrattinn laus verður að segjast eins og er," segir hann.

Hann segir að lítið þurfi til að kveikja sinueld.

„Við erum skíthrædd við þessi einnota grill, að fólk sé að not aþetta einhverstaðar og skilja eftir einhverja glóð í góðvirðri og um kvöldið eða seinna kemur rok og þá fer glóð út um allt, við höfum upplifað það á þingvöllum fyrir nokkrum árum síðan fóru þrír hektarar bara útaf einnota grilli sem var farið frá," segir hann.

Þá beri að varast allskonar nýjungar sem verið að er að bjóða uppá. Við höfum séð ýmislegt, einu sinni var einhversskonar kerti fest ofan í trédrumb og nú eru þetta einhver grill sem hanga í stöngum, þetta er alveg óskaplega fallegt á auglýsingasíðunum en þegar að fólk fer að nota þetta þá getur ýmislegt gerst ef það er ekki nægjanlega varið og tryggt , þannig það er ýmislegt sem við sjáum sem orkar tvímælis," segir Kristján Einarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×