Innlent

Jón Magnússon: Yfirmaður öryggismála ætti að vera settur af

„Það er ósköp eðlilegt að menn reyni að koma sér undan ábyrgð, en þetta er með því aumkunarverðasta sem maður hefur séð," segir hæstaréttarlögmaðurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Jón Magnússon, sem gagnrýnir viðbrögð Isavia harkalega fyrir að hafa brugðist öryggishlutverki sínu. Jón ræddi við Reykjavík síðdegis í dag um málefni tveggja hælisleitenda sem komust inn á Keflavíkurflugvöll og um borð í flugvél Icelandair. Þar fundust þeir skömmu síðar á klósettinu.

Í yfirlýsingu Isavia kom meðal annars fram að mennirnir hefðu verið óvanalega vel skipulagðir og lítið hefði verið hægt að gera, því hafi öryggisleit Isavia ekki brugðist. Þetta telur Jón hálfgert yfirklór hjá Isavia og spyr hversvegna yfirmaður öryggismála hjá Isavia hafi ekki verið gert að láta af störfum á meðan málið væri rannsakað.

„Flugöryggið er mikilvægt, þá ekki síst fyrir aðra sem tengjast vellinum," segir Jón og tekur fram að hann taki málefni hælisleitenda út fyrir sviga í þessu máli, því það skipti engu hver fór inn á völlinn. „Þarna birtist ofboðslegur veikleiki öryggiskerfis flugvallarins," segir Jón.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jón í Reykjavík síðdegis hér. Svo má finna bloggpistil Jóns um málið hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×