Innlent

Klifraði nokkru sinnum upp girðingu áður en öryggisvörður birtist

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eftirlit hefur verið eflt við girðingu á flugvallarsvæðinu í Keflavík eftir að tveimur mönnum tókst að smygla sér um borð í flugvél. Unnið var að því að setja upp gaddavír á ákveðnum svæðum í dag þar sem áður var auðvelt að komast yfir girðinguna.

Öryggismál á Keflavíkurflugvelli hafa verið í umræðunni eftir að tveimur hælisleitendum tókst um helgina að smygla sér um borð í flugvél sem var á leið til Kaupmannahafnar. Þeir fundust inni á klósetti vélarinnar skömmu áður en hún átti að fara í loftið. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér var greint frá því að mennirnir hafi komist yfir girðingu inn á svæðið. Fréttastofa ákvað að kanna hversu auðvelt það er.

Misjafnt er hversu há girðingin og gaddavír er ekki á allri girðingunni. Í dag var unnið að því að setja slíkan vír upp á ákveðnu svæði mjög nærri flugstöðinni. Þar var áður nokkuð auðvelt að klifra upp girðinguna líkt og við reyndum í dag. Þá hafði fréttamaður klifrað upp girðinguna á nokkrum stöðum áður en öryggisfulltrúar stöðvuðu hann.

Það er í höndum Flugmálastjórnar að hafa eftirlit með þeim fyrirtækjum sem sjá um Keflavíkurflugvöll og öryggið þar. Einar Örn Héðinsson framkvæmdastjóri flugöryggissviðs Flugmálastjórnar Íslands segir að strax eftir atvikið hafi verið gripið til ráðstafana.

„Það er búið að efla eftirlit við það sem skilur svæðið þar sem almenningur er og haftasvæðið. Í þessu tilviki er það girðing. Það er í sjálfu sér ekki krafa um girðingu. Það gæti verið annar búnaður. Til dæmis er ekki gaddavír þarna og það er ekkert endilega krafa um það," segir Einar Örn.

Einar segir það í skoðun hvernig mönnunum tókst að komast alla leið inn í flugvélina. Þegar svona gerist er yfirleitt fleira en eitt sem bregst. Málið sé litið alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×