Innlent

Vilja að lopapeysurnar séu prjónaðar á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Verkalýðsfélagið Framsýn íhugar að óska eftir upplýsingum frá íslenskum aðilum sem láta framleiða íslenskar lopapeysur í Kína til þess að selja á Íslandi. Óskað verður eftir upplýsingum um kjör og aðbúnað fólksins í Kína sem framleiðir lopapeysurnar fyrir markaðinn á Íslandi. Á vef Framsýnar segir að Kínverjar hafi fram að þessu ekki verið þekktir fyrir góð launakjör eða aðbúnað verkafólks, sé tekið mið af því sem gerist á Íslandi.

Handverkskonur milli heiða, þingeyskur félagsskapur sem hefur síðastliðin 20 ár selt heimatilbúnar afurðir á markaði á Fosshóli við Goðafoss, sendu framsýn yfirlýsingu þar sem íslenskir aðilar eru fordæmdir fyrir að senda íslenskan lopa úr landi til þess að láta vinna peysurnar þar með ódýrara vinnuafli.

„Ýmiskonar dót skartar íslenska þjóðfánanum eða myndum af okkar helstu náttúruperlum, vandlega merkt Kína eða Taiwan. Við því er víst lítið að segja en leiðinlegt samt að þetta skuli vera það helsta sem Íslendingum dettur hug að bjóða erlendum gestum okkar. En nú tekur steininn úr þegar íslenska lopapeysan er dregin niður í gróðasvaðið og subbuð út með þessum hætti. Drottningin okkar lopapeysan er flutt inn til Íslands. Er ekki fokið í flest skjól þegar fjársterkir aðilar eru farnir að flytja út íslenska lopann alla leið til Kína þar sem að prjónaðar eru úr honum peysur, þær síðan sendar aftur til Íslands og seldar erlendum ferðamönnum sem íslenskar lopapeysur," segir í yfirlýsingu handverkshópsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×