Innlent

Efla eftirlit með brunavörnum

JHH skrifar
Frá undirritun samningsins í dag. F.v. Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs SHS, Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, Björn Karlsson, forstjóri MVS og Ólafur K. Ragnarsson, deildarstjóri hugbúnaðarþróunar SHS.
Frá undirritun samningsins í dag. F.v. Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs SHS, Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, Björn Karlsson, forstjóri MVS og Ólafur K. Ragnarsson, deildarstjóri hugbúnaðarþróunar SHS.
Slökkviliðið, ásamt Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands (EBÍ) og Mannvirkjastofnun (MVS) skrifuðu í dag undir samstarfssamning um þróun hugbúnaðar til að efla eftirlit með brunavörnum á Íslandi. Hugbúnaðurinn hefur fengið vinnuheitið Brunavarnagáttir og kemur til með að halda utan um allt sem tengist brunavörnum í byggingum og ástandi þeirra. Gert er ráð fyrir að fyrsta útgáfa hans verði komin í notkun í desember 2014.

„Þessi hugbúnaður á eftir að auðvelda alla vinnu við brunaeftirlit, samræma vinnubrögð og gera öllum slökkviliðum í landinu og þjónustuaðilum brunavarna kleift að skrá og nálgast nauðsynlegar upplýsingar miðlægt," sagði Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í fréttatilkynningu.

Miðlægur gagnagrunnur mun þannig geyma og halda utanum gögn um allar byggingar á Íslandi sem heyra undir lög um brunavarnir og eru eftirlitsskyldar. Þar verða skráðar allar skoðanir slökkviliða og þjónustuaðila brunavarna, öll mál sem verða til vegna skoðana og allar aðgerðir sem framkvæmdar eru innan málanna. Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, segir verkefnið mjög brýnt og vonast til að öll slökkvilið í landinu muni notfæra sér hugbúnaðinn og stuðla þannig að samræmdri skráningu upplýsinga.

Að sögn Björns Karlssonar, forstjóra MVS, er þetta mjög spennandi verkefni sem gefur mikla möguleika til framtíðar því auðkenni fasteigna í grunninum verður það sama og er í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og mannvirkjaskrá MVS. Með því móti verður í framtíðinni hægt að geyma og nálgast upplýsingar um opinberar úttektir og leyfisveitingar á einum og sama staðnum. Þar með yrði Ísland fyrst Norðurlanda til að þróa og innleiða miðlægan gagnagrunn á landsvísu í þessum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×