Innlent

Heiðra minningu föður síns

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Bresk systkin á áttræðisaldri sigldu í morgun út fyrir Vestfirði til að heiðra minningu föður þeirra sem fórst þar á þessum degi fyrir sjötíu árum ásamt liðlega tvöhundruð sjómönnum.

Tricia og Peter voru ekki há í loftinu þegar rússneska skipalestin QP-13 fór út af áætlaðri siglingaleið vegna slæms skyggnis og inn á tundurskeytasvæði undan Straumnesi þann 5.júlí 1942.

„Það varð gríðarlega mikið manntjón í fjölda skipa. Ég held að átta skip hafi orðið fyrir árás og manntjóni," segir Tricia Hartley.

Fimm skip sukku þar á meðal HMS Niger sem var fremst í fararbroddi þennan örlagaríka dag en Thomas Jonhston faðir systkinanna var einmitt liðsforingi á því.

„Alls fórust 149 manns með HMS Niger og aðeins 6 komust af," segir Peter.

Faðirinn var á meðal látinna og nú sjötíu árum eftir andlátið eru Tricia og Peter komin til Íslands í fyrsta sinn til að minnast hans og látinna skipsfélaga.

„Við ætlum að sigla út og fara á staðinn þar sem skipin sukku. Þar fleytum við krönsum í virðingarskyni við föður okkar og alla þá sem fórust."

Og systkinin lögðu í morgun af stað á haf út.

„Þetta er yndislegur dagur og morgun. Ef hann verður svona verður þessi stund töfrum líkust," segir Peter að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×