Innlent

Lyfjakostnaður lækkar þrátt fyrri aukna lyfjanotkun

Lyfjakostnaður sjúkratrygginga, að undanskyldum S-merktum lyfjum (sjúkrahúslyf), lækkaði árið 2011 frá fyrra ári þrátt fyrir að lyfjanotkun hafi aukist á sama tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkratryggingum Íslands.

Lækkunin er einkum vegna aðgerða stjórnvalda er varða breytingar á greiðsluþátttöku í þunglyndislyfjum og í flogaveikilyfinu Lyrica. Að óbreyttu hefði lyfjakostnaður orðið 750 milljónum kr. hærri en raunin varð.

Svo segir í tilkynningunni:

Sjúkratryggingar Íslands hafa tekið saman yfirlit yfir almennan lyfjakostnað sjúkratrygginganna á árinu 2011. Að undanskildum S-lyfjum (sjúkrahúslyf) nam lyfjakostnaður sjúkratrygginganna 9.333 milljónum kr. árið 2011. Kostnaðurinn var 9.594 milljónir kr. árið 2010 og lækkaði því um 261 milljón kr. (2,7%) milli ára. Lyfjanotkun mæld í fjölda skilgreindra dagsskammta (DDD) jókst hins vegar á sama tíma um 5,1%. Aðhaldsaðgerðir stjórnvalda og aukin samkeppni hafa þannig þriðja árið í röð skilað umtalsverðri kostnaðarlækkun.

Gengi og verðlag lækkaði um 1,6% milli áranna 2010 og 2011 (m.v. 85% vægi lyfjaverðskrárgengis evru og 15% vægi vísitölu neysluverðs). Verð stærsta hluta lyfja er skráð í erlendri mynt, einkum danskri krónu og evru, og uppreiknast mánaðarlega.

Á föstu verðlagi og miðað við 5,1% magnaukningu frá 2010 hefði kostnaðurinn átt að hækka um 489 milljónir kr. og vera 10.083 milljónir eða 750 milljónum kr. hærri en raunin varð. Af heildarlækkuninni má rekja 141 milljón kr. til verðlags- eða gengisþróunar og 609 milljónir kr. til aukinnar samkeppni og aðhaldsaðgerða stjórnvalda.

Aðgerðir stjórnvalda hafa einkum haft áhrif á kostnað vegna þunglyndislyfja, sem lækkaði um 221 milljón kr. milli 2010 og 2011, og vegna flogaveikilyfsins Lyrica, sem lækkaði um 100 milljón kr. Breytingar á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna þunglyndislyfja voru gerðar 1. júní 2010 og vegna Lyrica 1. september 2010. Að auki hefur verð á nokkrum lyfjum lækkað með tilkomu samheitalyfja ásamt því að greiðsluhluti sjúklings var hækkaður 1. janúar 2011 um 5,23%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×