Innlent

Ljóðabók um andleg veikindi

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
„Það er hægt að komast úr því hyldýpi sem maður hefur verið í," segir ung kona sem hefur ásamt fimmtán öðrum einstæðum mæðrum gefið út ljóðabók um reynslu og jafnframt sigur á andlegum veikindum.

Ég er sjúkdómurinn fíkn,

ég vil þig éta,

ég vil þig sjúga,

ég vil þig drekka.

Þetta er brot úr ljóði Guðnýjar sem hefur síðasta eina og hálfa árið setið endurhæfinganámskeið Kvennasmiðjunnar ásamt fleiri einstæðum mæðrum sem hafa átt erfitt með að stunda nám eða vinnu vegna veikinda sinna.

„Ég samdi til stelpnanna minna. Stundum þegar maður er þunglyndur og hefur ekki tilfinningar sínar þá getur maður kannski ekki alveg sýnt það," segir Matthildur Matthíasdóttir

Ljóðabókin nefnist úr fjötrum til frelsis og það á vel við því ljóðin fjalla um allra verstu tíma kvennanna sem og

„Frelsið og fegurðina þegar maður kemur út úr þessum fjötrum. Hvort sem það er einhver fíkn, þráhyggja eða þunglyndi, kvíði eða ótti," segir Guðný Hrefna Leifsdóttir.

„Ég held að maður viljii ekki gleyma. Maður vill nota reynsluna sína til að hjálpa öðrum. Þessi bók snýst líka um það, það er til lausn og það er hægt að komast út úr því hyldýpi sem maður hefur verið í," segir Guðný.

„Fólk á líka bara að vera duglegt að segja frá, það er engin skömm að líða illa og það er engin skömm að eiga erfitt," segir Matthildur.

Og þar sem hópurinn er útskrifaður er útskriftarferð næst á dagskrá en til að fjármagna hana selja þær einmitt bókina góðu.

„Gera eitthvað fyrir okkur sjálfar, svona húsmæðraorlof, því okkur finnst við eiga það skilið. Fagna þessum áfanga að við séum vaknaðar til vitundar," segir Guðný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×