Innlent

Of Monsters and Men þakka fyrir sig og kveðja

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Of Monsters and Men
Of Monsters and Men
Hljómsveitin Of Monsters and Men stóð fyrir sannkölluðum stórtónleikum í Hljómskálagarðinum í gær. Talið er að um 18 þúsund manns hafi mætt á svæðið. Hljómsveitarmeðlimirnir eru afar sáttir með tónleikana og þakka Íslendingum fyrir stuðninginn.

„Það var alveg ótrúlega gaman í gær," segir Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona og gítarleikari Of Monsters and Men. „Æðisleg mæting, frábært veður og góð stemning."

Síðustu mánuði hefur hljómsveitin verið á tónleikaferðalagi um Bandaríkin. Það var því ánægjulegt að fá að spila fyrir Íslendinga. „Það var rosalega gaman að fá að spila loks hérna heima og alveg ótrúlegt að sjá hversu margir styðja okkur."

Frá tónleikunum í gær.mynd/Eydís Ögn Úffadóttir
Þá segir Nanna að mannhafið hafi sannarlega komið þeim á óvart. „Þetta var ótrúlegt. Það var fólk út um allt — ég sá nokkra sem héngu í trjánum."

Hljómsveitin stoppar stutt við á Íslandi. Á morgun hefst tveggja og hálfs mánaðar tónleikaferðalag og munu þau spila vítt og breitt um heiminn. Nanna segir þetta vera ansi langt tónleikaferðalag. Þegar fréttamaður forvitnaðist um hvernig væri hægt að pakka fyrir slíka ferð svarði Nanna:

„Veistu, ég hef ekki hugmynd. Við erum öll núna í sitt hvoru horninu og erum að skipuleggja okkur. Ég veit ekki hvort ég á að pakka öllu sem ég á, eða nákvæmlega engu. Ætli ég pakki ekki öllu á endanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×