Innlent

Búðahnuplari gómaður með loftbyssu í buxnastrengnum

Búðahnuplari var gómaður í verslunum Hagkaups í Skeifunni um miðnætti. Sá hafði stolið vörum fyrir rúmar þúsund krónur en við nánari athugun reyndist hann vera með ætluð fíkniefni í fórum sínum og loftbyssu í buxnastrengnum. Loftbyssan óhlaðin og ekki notuð við þjófnaðinn. Manninum var sleppt að lokinni skýrslutöku.

Lögregla var kölluð að Kringlunni um ellefuleytið í gærkvöldi en þar voru öryggisverðir verslunarmiðstöðvarinnar með konu í haldi vegna þjófnaðar frá kaffihúsi við Stjörnutorg. Konan hafði farið inn í kaffihúsið eftir lokun og með því sett öryggiskerfið í gang. Hún hafði neytt matar fyrir rúmar þúsund krónur auk þess sem hún hafði reynt að stela áfengi af ýmsum toga. Konan, sem var ölvuð, var vistuð í fangageymslum í nótt og verður rætt við hana þegar líður á daginn.

Um tvöleytið var lögreglan síðan kölluð til í miðborginni en þar þurfti hún að hafa afskipti af karlmanni á fertugsaldri. Sá stóð fyrir utan hús eitt, sokka og skólaus og hafði hann vakið íbúa hússins. Lítið gekk að ræða við manninn sökum mikillar vímu en lögreglumenn fundu skó hans og sokka í nágrenninu og fluttu manninn í fangageymslu þar sem hann sefur nú úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×