Innlent

Hærri skráningargjöld í HÍ munu ekki minnka eftirspurn

BBI skrifar
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ. Mynd/Anton Brink
Skráningargjöld Háskóla Íslands hækka frá og með þessu ári um 15 þúsund krónur, úr 45 þúsundum í 60 þúsund. Það er fyrsta hækkunin á skráningargjaldinu í átta ár. Hækkunin er tímabær að mati Kristínar Ingólfsdóttur, rektors.

„Ég held að flestir hafi nú séð að það var sanngjarnt að fá þessa hækkun loksins," segir Kristín og hefur ekki áhyggjur af því að eftirspurn eftir háskólanámi muni minnka í kjölfarið.

Í dag var greint frá því í breskum fjölmiðlum að eftirspurn eftir háskólanámi þar hefði minnkað um 7,7% eftir að skólagjöld í landinu hækkuðu. Hækkunin á skráningargjaldi í Háskóla Íslands tekur gildi þetta árið en um leið fellur aðsóknarmet í skólann. Um 9.500 umsóknir um grunn- og framhaldsnám bárust skólanum í ár. Frá árinu 2009 hefur aðsókn aukist um 40%. „Þessi hækkun virðist því ekki hafa fælt fólk frá nema síður væri," segir Kristín.

Kristín er ánægð með fjölgunina. Hún segir að lögð sé áhersla á að auka hlut þeirra sem fara í háskóla í öllum löndunum í kringum okkur. „Svo að við viljum gjarna taka á móti þeim sem hafa nægilegan undirbúning og vilja koma í skólann," segir hún. Hún segir hins vegar mikilvægt að skólinn nái að sinna öllum nemendum vel og það sé orðið nokkuð erfitt í þeim fjárhagsþrenginum sem hafa steðjað að undanfarið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×