Innlent

Segir Ólaf Ragnar hafa styrkt stöðu sína enn frekar eftir þáttinn í gær

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, telur að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hafi aðeins styrkt stöðu sína eftir umræðuþátt með forsetaframbjóðendum í gærkvöldi. Þóra Arnórsdóttir hefur hins vegar saxað á forskot Ólafs Ragnars samkvæmt nýrri könnun og munurinn á milli þeirra er nú sjö prósentustig.

Allir forsetaframbjóðendurnir sex komu fram í umræðuþætti á Rúv í gærkvöldi. Stefanía Óskarsdóttir segir að lítið nýtt hafi komið fram í þættinum sem geti haft áhrif á afstöðu kjósenda.

„Mér finnst það svona eftir þáttinn að Ólafur Ragnar sé í ágætis málum og þeir sem eru að bjóða sig fram gegnum hafi lítið gert til að kveikja í kjósendum," segir Stefanía. Hún segir að lítið hafi gerst í þættinum sem geti hjálpað öðrum frambjóðendum að kroppa fylgið af Ólafi Ragnari.

Eftir umræðuþátt Stöðvar 2 á sunnudag virðist Þóra Arnórsdóttir hafa styrkt stöðu sína, því samkvæmt könnun Capacent Gallup sem birtist í gær, fyrir umræðuþáttinn á Rúv, mælist Þóra með 39 prósent stuðning en Ólafur Ragnar er sem fyrr með 46 prósent. Svo virðist sem óákveðna fylgið sé farið að dreifa sér á frambjóðendur og Þóra virðist ekki aðeins hafa notið góðs af, því Ari Trausti Guðmundsson mælist með 9 prósenta fylgi, en aðrir minna.

Sjö prósentustiga munur er nú á Ólafi Ragnari og Þóru. Stefanía Óskarsdóttir segir að Þóru bíði ærið verkefni ef hún ætli sér að taka fylgi af Ólafi Ragnari.

„Mér sýnist að Ólafi Ragnari hafi tekist að svara öllum þeim erfiðu spurningum sem beindust að honum eftir hrunið og hann hefur komist vel frá þeim umræðuþáttum um forsetakosningarnar sem hefur verið sjónvarpað. Mér finnst hann í rauninni hafa styrkt stöðu sína. Ég sé ekkert eftir þennan þátt í gær sem gæti hafa veikt Ólaf Ragnar. Þessi áhersla í þættinum í gær á Icesave gerir í raun ekkert nema styrkja hann," segir Stefanía. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×