Innlent

Breta langar í hitaveitur og sæstreng

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslensk og bresk stjórnvöld undirrituðu nú síðdegis yfirlýsingu um víðtækt samstarf á sviði orkumála, þar á meðal um lagningu sæstrengs á milli landanna, um jarðhitaleit í Bretlandi og um olíuiðnað.Orkumálaráðherra Bretlands, Charles Hendry, hóf Íslandsheimsóknina nú síðdegis í Hellisheiðarvirkjun þar sem Oddný Harðardóttir iðnaðarráðherra tók á móti honum ásamt Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta sinn sem orkumálaráðherra Bretlands heimsækir Ísland og hann fékk að sjálfsögðu að kynnast af eigin raun hvernig Íslendingar beisla orku úr iðrum jarðar.Í stöðvarhúsi virkjunarinnar var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf ríkjanna á sviði orkumála og tekur það til fjögurra þátta, um jarðhitaleit í Bretlandi og hitaveitur, um athugun á sæstreng milli Íslands og Bretlands, um að styðja jarðhitanýtingu í þróunarlöndum, einkum Austur-Afríku, og um miðlun upplýsinga um olíu- og gasiðnað, þar á meðal um olíuboranir á hafsbotni.Bretar nýta þegar jarðhita, en í litlum mæli, og eru með hitaveitur á nokkrum stöðum en telja sig geta sótt þekkingu til Íslendinga til að gera enn betur á því sviði.„Við höfum mikinn áhuga á að sjá hvort við getum beislað þá tækni á Bretlandi. Íslensk fyrirtæki gætu gegnt mikilvægu hlutverki í því ferli," sagði Charles Hendry í viðtali í fréttum Stöðvar 2.„Við erum einnig að hefja viðræður um það hvort það væri hagkvæmt fyrir bæði löndin að tengjast með raforkusæstreng," sagði Hendry.Iðnaðarráðherra Íslands gerði breska ráðherranum hins vegar ljóst að lagning sæstrengs væri viðkvæmt mál á Íslandi.„Ég hef lagt á það áherslu við ráðherrann að við erum að setja saman stóran hóp manna vegna þess að við munum ekki fara út í lagningu sæstrengs nema um það verði breið sátt á meðal Íslendinga," sagði Oddný Harðardóttir.Breski ráðherrann mun í fyrramálið flytja erindi á ráðstefnu í Arion-banka um orkumál Evrópu og hvort þar bíði Íslendinga einhver tækifæri. Að ráðstefnunni standa UK Trade & Investment, Arion-banki og Orkustofnun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.