Erlent

„Flug Falcons var fullkomið“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Frá geimskotinu í dag.
Frá geimskotinu í dag. mynd/AP

Bandaríska fyrirtækið SpaceX braut blað í sögu geimferða í dag þegar Falcon 9 eldflaugin hóf sig á loft í Flórída. Um borð í flauginni er ómannað hylki, Dragon, en það mun flytja rúmlega 450 kíló af birgðum til Alþjóðlegum geimstöðvarinnar.



Hingað til hafa alþjóðlegar stofnanir og ríkisstjórnir séð um slík verkefni.

„Flug Falcons var fullkomið," skrifaði Elon Musk á samskiptamiðlinum Twitter en hann er stofnandi, stjórnarformaður og helsti hönnuður Falcon 9 eldflaugarinnar. „Dragon er nú á sporbraut um jörðu... Þungu fargi er af mér létt."

Seinna meir sagði Musk fjölmiðlum að hann væri afar stoltur af árangrinum: „Fyrir okkur er þetta eins og að vinna Super Bowl."

Musk, sem er fertugur, hefur komið að ýmsum verkefnum í gegnum tíðina. Hann var einn af stofnendum PayPal og var stærsti hluthafi fyrirtækisins þegar uppboðsvefsíðan eBay keypti það árið 2002.

Geimskotsins í dag var beðið með mikilli eftirvæntingu. Fyrir nokkrum dögum reyndi SpaceX að skjóta Falcon 9 eldflauginni á sporbraut en vegna bilunar þurfti að aflýsa geimskotinu — hálfri sekúndu áður en kveikja átti á eldflaugunum.

John Holdren, vísindaráðgjafi Barack Obama, Bandaríkjaforseta, óskaði Musk og samstarfsmönnum hans til hamingju í dag. „Hvert einasta geimskot er merkilegur áfangi, en þetta er sannarlega spennandi," sagði Holdren. „Þetta einkaframtak boðar nýja tíma hjá NASA og stofnunin mun nú geta einbeitt sér að því að sinna verkefnum sínum."

Frá því að NASA þurfti að snúa baki við geimferðaáætlun sinni fyrir nokkrum árum hefur stofnunin þurft að reiða sig á Geimferðastofnun Rússlands við að flytja birgðir og mannskap í Alþjóðlegu geimstöðina.

Á næstu dögum mun síðan Dragon-birgðahylkið tengjast geimstöðinni en NASA mun sýna beint frá þessum merka áfanganum.

Hægt er að sjá Falcon 9 geimflaugina hefja sig á loft í myndbandinu hér fyrir ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×