Innlent

Flugvél með hala í eftirdragi leitar olíu frá Egilsstöðum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norsk flugvél sem dregur hala á eftir sér hóf í dag flugsegulmælingar á Jan Mayen-hryggnum og hefur hún bækistöð á Egilsstöðum næstu fjórar vikur. Þá er rannsóknarskip væntanlegt á Drekasvæðið í næsta mánuði til hljóðbylgjumælinga.

Þessar myndir tók Nikulás Bragason á Egilsstaðaflugvelli í morgun þegar áhöfn vélarinnar var að leggja upp í fyrsta flugið. Þetta er samstarfsverkefni íslenskra og norskra stjórnvalda og miðar að því að afla nánari upplýsinga um jarðfræði Jan Mayen-hryggjarins vegna olíuleitar. Jarðfræðistofnun Noregs og Olíustofnun Noregs standa að mælingunum ásamt Orkustofnun, sem greiðir hluta kostnaðar.

Þetta er framhald flugsegulmælinga sem hófust í fyrrasumar en á heimasíðu Jarðfræðistofnunar Noregs má sjá að flogið verður yfir víðfeðmt svæði austur og norðaustur af Íslandi.

Þannig dregur flugvélin mælitækið á eftir sér á flugi.
Segulmælitækið líkist flugskeyti og er undir flugvélinni en á flugi er tækið látið síga aftur úr henni í langri taug og flugvélin dregur það síðan á eftir sér eins og hala svo að málmar og tæki hennar trufli ekki mælingarnar.

Nordic Explorer í Hafnarfirði sumarið 2009.Grétar Þór Sæþórsson
Rannsóknarskipið Nordic Explorer verður einnig á Jan Mayen-hryggnum í sumar við hljóðbylgjumælingar á kostnað Olíustofnunar Noregs en í samstarfi við Orkustofnun. Þessar myndir tók Grétar Þór Sæþórsson af skipinu í Hafnarfirði fyrir þremur árum þegar það nýtti Ísland sem þjónustuhöfn vegna olíuleitar við Austur-Grænland.

Þrjú fylgdarskip verða með í leiðangrinum sem hefst upp úr næstu mánaðamótum og er reiknað með að hann taki tvo til þrjá mánuði. Leitarferlar skipsins ná inn í íslenska lögsögu, inn á þann hluta Drekasvæðisins sem Norðmenn eiga rétt á að nýta að einum fjórða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.