Innlent

Tíu búrhvalir í botni Steingrímsfjarðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Myndir af tíu búrhvölum náðust á innanverðum Steingrímsfirði í gær. Myndatökumaðurinn segist aldrei hafa séð annað eins og það hafi verið magnað að fylgja hvölunum eftir. Hvalasérfræðingur segir þessa hegðun búrhvala mjög óvenjulega.

Hvalavaðan var nánast inni í botni Steingrímsfjarðar, vel fyrir innan Hólmavík og lengst af á móts við bæinn Bassastaði, að sögn Jóns Halldórssonar, landpósts á Hólmavík, sem tók myndir síðdegis í gær af hvölunum en myndband af þeim verður sýnt í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Jón sá hvalina fyrst úr landi í gærmorgun en fékk síðan kunningja sinn, Benedikt Pétursson, til að skutla sér á bát út á fjörðinn að loknum vinnudegi. Þeir sögðust strax vera vissir um að þetta væru búrhvalir og það staðfestir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur Hafrannsóknarstofnunarinnar, eftir að hafa séð myndirnar.

Jón segir að þeir hafi fylgt hvölunum eftir í um það bil klukkustund og kveðst aldrei fyrr hafa séð annað eins. Það hafi verið magnað að sjá þetta.

Gísli Víkingsson segir mjög óvenjulegt að sjá búrhvali svo langt inni á firði enda haldi þeir sig yfirleitt langt úti á hafi og á djúpsævi. Gísli minnist þess þó að árið 1994 hafi 6-7 búrhvali rekið á land á Ströndum og þeir drepist og tveimur árum áður hafi svipaður atburður orðið á Langanesi.

Gísli segir erfitt að skýra hvað valdi því að búrhvalir sjáist þarna á grunnsævi inni á firði. Þeir kafi dýpst allra spendýra, niður á allt að 2ja kílómetra dýpi og geti haldið niðri í sér andanum í eina og hálfa til tvær klukkustundir.

Búrhvalir verða allt að átján metra langir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×