Stefán Jón Hafstein, sem íhugar nú forsetaframboð, gagnrýnir Ólaf Ragnar Grímsson harðlega í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Hann rekur rökstuðning Ólafs fyrir því að gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Bessastöðum en Ólafur sagði meðal annars að vaxandi óvissa væri um stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, sömuleiðis að umrót væri á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis.
Stefán Jón furðar sig á þessum rökstuðningi, segir óvissuna kjarna í lýðræðislegu ferli og að umrót þjóðmála geti vart hafa verið meira en það sem menn upplifðu í Hruninu - og það hafi orðið fyrir þremur árum.
Pólitískt umrót séu engin nýmæli sem kalli á aðgerðir forseta. Mestum tíðindum sæti hins vegar sú fullyrðing Ólafs Ragnars að nú standi átök um fullveldi landsins, og Stefán Jón undrast að Ólafur telji það skammtímaverkefni sem hann geti leyst á tveimur árum eða svo. Hann lýkur greininni með orðunum að það jafngildi uppgjöf að kjósa forseta Gamla Íslands enn á ný eftir sextán ára setu á þeim valdastóli.
