Innlent

Lóan er komin - varað við ísingu og éljahryðjum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Það er víst staðreynd, Lóan er komin. Allavega greinir Skessuhorn frá því á vef sínum að fyrsta heiðlóan sé sannanlega komin til landsins. Mynd náðist af henni á heimtúninu við bæinn Ytri Hólm í Hvalfjarðarsveit, skammt sunnan við Akranes.

Samkvæmt Skessuhorni var það Erling Þór Pálsson, hafnsögumaður sem býr í Lindási, sem var að viðra sig og hundinn á túninu skammt frá bænum þegar hann sá til lóunnar síðdegis í dag, 19. mars. Í ljósi efasemda sem menn höfðu um lóu sem heyrst hafði í á Suðurlandi í síðustu viku, vildi Elli hafa vaðið fyrir neðan sig og hringdi því á ljósmyndara frá Skessuhorni til að færa sönnur á mál sitt.

Lóan virðist ekki ætla að vera boðberi hlýnandi veðurs, þó það sé auðvitað ómögulegt að útiloka slíkt, því Vegagerðin og Veðurstofa Íslands vill koma eftirfarandi ábendingu á framfæri:

Það verður hvöss SV-átt með éljahryðjum vestan- og suðvestantil og eins norður í land. Veður fer jafnframt kólnandi og víða á þessum slóðum verður ísing á vegum með kvöldinu. Skafrenningur og blint í éljum á fjallvegum til morguns, s.s. á Hellisheiði og ekki síður á Holtavörðuheiði og fleiri hærri fjallvegum um landið vestanvert.

Fyrir þá sem trúa ekki að vorboðinn sé kominn, þá má finna óræka sönnun á vef Skessuhorns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×