Innlent

Guðgeiri gert að gangast undir geðrannsókn

Guðgeir Guðmundsson.
Guðgeir Guðmundsson. Mynd / Lillý
Guðgeir Guðmundsson hefur verið úrskurðar í gæsluvarðhald fram á föstudag fyrir að hafa stungið framkvæmdastjóra lögfræðistofunnar Lagastoðar í gærmorgun. Honum er einnig gert að gangast undir geðrannsókn. Hann hefur játað verknaðinn.

Samkvæmt fréttmanni sem var á staðnum reyndi Guðgeir ekki að hylja andlit sitt þegar hann var leiddur fyrir dómara. Hann virtist yfirvegaður.

Tilviljun ein virðist hafa ráðið því að Guðgeir réðist á fórnarlamb sitt frekar en annan starfsmann fyrirtækisins. Hann stakk manninn, sem er um sextugt, margsinnis, meðal annars í háls og brjóst.

Samstarfsmaður þess sem var stunginn, Guðni Bergsson, kom honum til bjargar og náði að yfirbuga manninn áður en verr færi. Í átökunum var hann stunginn tvisvar í læri, en áverkar hans reyndust minniháttar.

Ekki er ljóst hvað Guðgeiri gekk til.

Málið hefur valdið óhug í samfélaginu og orðið til þess að innheimtufyrirtæki hafa hugað að öryggisatriðum. Samkvæmt Brynjari Níelssyni, einum eiganda Lagastoðar, virðast engin óvinveitt samskipti hafa átt sér stað á milli mannsins og stofunnar áður en til hnífaárásarinnar kom. Hann virðist því hafa ráðist á fórnarlamb sitt vopnaður veiðihníf án sjáanlegrar ástæðu.

Maðurinn gekkst undir aðgerð í gærdag en hann er enn í lífshættu samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×