Innlent

Geir ekki beðinn um að beita sér í Icesave

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde ásamt Baldri Guðlaugssyni fyrrverandi ráðuneytisstjóra .
Geir Haarde ásamt Baldri Guðlaugssyni fyrrverandi ráðuneytisstjóra . mynd/ gva.
Aldrei kom til greina hjá samráðshópi um fjármálastöðugleika að fá atbeina Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til þess að hvetja Landsbankann til þess að flytja Icesave reikningana úr útibúi bankans yfir í dótturfélag hans í Bretlandi. Þetta sagði Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, í vitnaleiðslum fyrir Landsdómi í dag.

Baldur sagði að um mitt ár 2008 hefði samráðshópurinn verið búinn að gera sér grein fyrir því að innlánasöfnun Landsbankans með Icesave reikningunum væri óheppileg. Engu að síður væri staðreyndin sú að samkvæmt reglum um EES samstarfið hefði þessi innlánasöfnun verið heimil.

Samráðshópurinn hvatti Fjármálaeftirlitið til þess að ræða áhyggjur hópsins af innlánasöfnuninni við forsvarsmenn bankanna og var það gert. Komið hefur fram í vitnaleiðslunum að snemma á árinu 2008 var unnið að því í samstarfi Landsbankans, breska fjármálaeftirlitsins og íslenska fjármálaeftirlitsins að koma Icesave inn í dótturfélagið, en síðar þegar á árið leið hafi breska fjármálaeftirlitið dregið lappirnar í þeirri vinnu.

Eins og fram hefur komið er eitt af ákæruefnunum gegn Geir þannig að hann er sakaður um að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands í Bretlandi yfir í dótturfélag og að stuðla að framgangi þess með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Vitnaleiðslum yfir Baldri Guðlaugssyni er nú lokið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×