Innlent

Flestir vildu að Blár Ópal myndi vinna: "Leiðinlegt fyrir sigurlagið“

Félagarnir í Bláum Ópal. Ingó Veðurguð er þriðji frá vinstri.
Félagarnir í Bláum Ópal. Ingó Veðurguð er þriðji frá vinstri. MYND / Daníel.
„Það er skrýtið að þetta hafi ekki verið skýrara," segir Ingólfur Þórarinsson, eða Ingó Veðurguð eins og hann er oftast kallaður, en hann samdi lagið Stattu upp ásamt Axel Árnasyni.

RÚV greindi frá því í kvöld að framlag þeirra til Eurovison keppninnar hefði sigrað símakosninguna en þeir töpuðu þar sem 7 manna dómnefnd setti lagið Mundu eftir mér í fyrsta sætið. Aðeins 700 atkvæði voru á milli laganna en lagið Stattu upp lenti í þriðja sæti hjá dómnefndinni. Því töpuðu félagarnir í Bláum Ópal.

Ingó segir að það þurfi að skýra reglurnar. Þannig hafi það verið óskýrt hvaða vægi símakosningin hefði og svo dómnefndin. Hann telur mikilvægt að þetta verði skýrt. „Ég held að besta fyrirkomulagið væri að láta símakosninguna gilda, enda ætti þjóðin að ráða þessu," segir Ingó sem hefur þó mesta samúð með sigurlaginu.

„Það er leiðinlegt fyrir þau að þurfa að standa í þessu núna," segir Ingó sem finnst sigurlagið mjög gott og óskar sigurvegurunum til hamingju. „Þetta er nefnilega flott lag hjá þeim og því leiðinlegt að þau þurfi að standa í þessu stappi," segir Ingó og bætir við að þetta sé hálfgert skipulagsklúður hjá RÚV.

Alls voru 79 þúsund atkvæði greidd í keppninni en hvert smáskilaboð kostaði 119 krónur. Íslendingar greiddu því rúmlega níu milljónir króna fyrir að hygla því lagi sem þeir töldu best. Með takmörkuðum árangri þó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×