Enski boltinn

Ji Dong-Won tryggði Sunderland ótrúlegan sigur á City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sunderland vann hreint ótrúlegan sigur á toppliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag. Ji Dong-Won skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartímans.

Manchester City sótti nánast án afláts allan seinni hálfleikinn en leikmönnum liðsins tókst einfaldlega ekki að skora. Simon Mignolet átti stórleik í marki Sunderland og Suður-Kóreumaðurinn Dong-Won, sem kom inn á sem varamaður í leiknum, skoraði með nánast síðustu spyrnu leiksins.

Sunderland hefur átt í stökustu vandræðum vegna meiðsla varnarmanna að undanförnu en liðið náði þó að halda aftur af miklum sóknarþunga City-manna sem hafa nú ekki skorað í tveimur leikjum í röð. Liðið gerði markalaust jafntefli við West Brom á öðrum degi jóla.

Martin O'Neill hefur náð miklu úr liði Sunderland síðan hann tók við í byrjun desember en liðið er nú komið með 21 stig og situr í þrettánda sæti deildarinnar.

Stuðningsmenn Manchester United fagna sjálfsagt þessum úrslitum eftir tapleikinn gegn Blackburn í gær en United og City eru enn jöfn að stigum á toppnum eftir leiki helgarinnar í Englandi.

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri City, ákvað að hvíla Mario Balotelli í dag auk þess sem að þeir David Silva og Sergio Agüero voru báðir á bekknum í upphafi leiksins.

Það hafði greinileg áhrif á lið City því það voru heimamenn sem byrjuðu miklu mun betur í leiknum. Stephane Sessegnon átti góða sendingu inn fyrir vörn City á Nicklas Bendtner sem fór þó afar illa að ráði sínu og lét Joe Hart verja frá sér.

City komst ekki almennilega inn í leikinn fyrr en um miðbik hálfleiksins. Edin Dzeko, sem var einn í framlínu City, komst tvívegis nálægt því að skora. Í fyrra skiptið varði Simon Mignolet en í seinna skotinu sleikti boltinn ofanverða slánna.

Mancini brást við með því að setja Agüero inn á í hálfleiknum auk þess sem að David Silva kom inn á tíu mínútum síðar. City var meira með boltann en náði ekki að skapa sér mörg færi framan af.

Sunderland komst svo í skyndisókn um miðbik hálfleiksins. Sessegnon komst einn gegn Hart í marki City en í stað þess að gefa á Bendtner, sem var dauðafrír hinum megin í teignum, ákvað hann að skjóta. Boltinn hæfði hins vegar ekki markið og O'Neill saup hveljur á hliðarlínunni.

Micah Richards kom svo inn á þegar um 25 mínútur voru til leiksloka og var nánast um einstefnu að ræða að marki Sunderland eftir það. Dzeko fékk nokkur hálffæri og Richards átti skalla í slá á 89. mínutu en allt kom fyrir ekki - boltinn vildi ekki inn.

City setti allt púðrið í sóknarleikinn og svaf á verðinum þegar að Sunderland komst í skyndisókn eftir að varnarmaður komst í veg fyrir skot Agüero. Boltinn barst á Dong-Won sem lék á Joe Hart og skoraði auðveldlega.

Endursýningar í sjónvarpi sýndu samt að líklega var hann rangstæður en markið stóð engu að síður gilt og gríðarlega sætur sigur Sunderland-manna staðreynd.

Mignolet átti stórleik í dag en þetta var hans fyrsti leikur síðan hann nef- og kinnbeinsbrotnaði í leik gegn Aston Villa í lok október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×