Innlent

Gengur hratt á makrílkvótann

Nokkuð ber á síld sem meðafla við makrílveiðarnar sem nú eru á lokametrunum hjá HB Granda.
Nokkuð ber á síld sem meðafla við makrílveiðarnar sem nú eru á lokametrunum hjá HB Granda. mynd/hbgrandi
Makrílveiðar uppsjávarveiðiskipa HB Granda hafa gengið vel í sumar. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að í byrjun vikunnar var búið að veiða um 11.400 tonn af makríl á vertíðinni og þá voru óveidd um 4.500 tonn. Hlutfall síldar í makrílaflanum hefur aukist upp á síðkastið, en skip sem eru á síldveiðum norðan við helsta makrílveiðisvæðið hafa jafnframt verið að fá 10-20% meðafla af makríl.

„Veiðin hefur verið í góðu lagi í sumar. Það kom reyndar smá deyfð í þetta í gær, eins og gerist af og til, en eftir að við komum á miðin um miðnætti hafa aflabrögðin verið með ágætum,“ segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni AK, en er rætt var við hann laust upp úr hádeginu í gær var verið að ljúka þriðja holi veiðiferðarinnar í Litladjúpi, en nú er lögð áhersla á að ná makrílkvótanum áður en haldið verður til síldveiða.

Vinnsla í uppsjávarhúsinu á Vopnafirði hefur gengið vel í sumar enda eru skipin þrjú, sem sjá vinnslunni fyrir hráefni. Þau landa á þriggja daga fresti með 400 til 500 tonna afla hvert. Makríllinn sem nú veiðist er feitur og fallegur og meðalvigtin hjá Ingunni í yfirstandandi veiðiferð er rúmlega 400 grömm. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×