Innlent

Nú er bara að reikna og semja

Iceland Express Lögmenn fyrirtækisins bíða nú upplýsinga frá Ríkiskaupun en svo verður farið að reikna og semja.
Iceland Express Lögmenn fyrirtækisins bíða nú upplýsinga frá Ríkiskaupun en svo verður farið að reikna og semja.
„Þetta er nokkuð borðleggjandi, að meta tjónið sem Iceland Express varð fyrir, svo að ég geri ráð fyrir að fljótlega verði hægt að setjast niður og semja um skaðabæturnar,“ segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður Iceland Express.

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup væru skaðabótaskyld gagnvart fyrirtækinu þar sem það tók tilboði Icelandair í útboði um flugsæti fyrir ríkisstarfsmenn til og frá Íslandi. Iceland Express átti lægsta tilboð en þrátt fyrir það tóku Ríkiskaup tilboði Icelandair sem var töluvert óhagstæðara.

„Í viðlíka málum hefur það stundum reynst erfitt að sanna tjónið en svo er ekki í þessu máli,“ segir Páll. „Ég hef nú þegar óskað eftir upplýsingum frá Ríkiskaupum sem nauðsynlegar eru til að staðreyna umfang tjónsins. Þegar þær berast förum við að reikna en svo er íslenska ríkinu veitt tækifæri til að gera upp við tjónþola. Og ég á nú ekki von á öðru en þeir geri það bara; tjónið er borðleggjandi og hér liggur fyrir skýr úrskurður stjórnvaldsins og það er ekki við öðru að búast en þeir uni honum.“

Ríkiskaup hafa sjö daga til að svara kröfunni um upplýsingarnar en hún var send þeim síðasta þriðjudag.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×