Fótbolti

Ísland upp um eitt sæti á FIFA listanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands.
Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands. Mynd/Stefán
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 96. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í dag. Liðið fer upp um eitt sæti frá síðasta lista.

Ísland lék tvo leiki frá því að síðasti listi var gefinn út. Landsliðið vann góðan 2-1 útisigur á Albaníu en tapaði fyrir Sviss, 2-0.

Stigin eru reiknuð út frá árangri síðustu fjögurra ára og datt nú út sigur Íslands á Makedóníu, 1-0, í undankeppni HM 2010 í október árið 2008.

Ísland fer einnig upp um eitt sæti á meðal Evrópuþjóða og er nú í 40. sæti af 53 Evrópuþjóðum. Finnar eru næstir fyrir ofan en Norður-Írland fyrir neðan.

Sviss er efsta liðið sem er í riðli Íslands í undankeppni HM 2012 en það er í sextánda sæti og fellur um eitt frá síðasta lista. Noregur er svo í 26. sæti og stendur í stað.

Slóvenía (49. sæti) og Albanía (67. sæti) koma næst en Kýpur fellur um heil 20 sæti og er í 127. sæti. Liðið tapaði fyrir Noregi og Slóveníu í síðustu tveimur leikjum sínum.

Spánn og Þýskaland eru enn í efstu tveimur sætum en Argentína er komið upp í þriðja sæti á kostnað Portúgals, sem fellur niður í það fjórða.

Ítalía stekkur upp um þrjú sæti og er í því fimmta en næst koma England, Holland, Kólumbía, Rússland og Króatía.

Úrúgvæ er dottið úr hópi tíu efstu liða eftir að komist mjög hátt um tíma. Brasilía er í þrettánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×