Fótbolti

Eiður Smári aldrei byrjað betur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen hefur farið á kostum í fyrstu leikjum sínum með Cercle Brugge í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og skoraði um helgina sitt fimmta deildarmark í hinum græna búningi Cercle.

Eiður Smári skoraði í fyrstu fjórum leikjum sínum með félaginu og fimmta markið kom í hans sjöunda leik. Eiður Smári kom Cercle þá í 2-1 í 3-1 sigri á Genk en Genk er í hópi efstu liðanna. Markið hans um helgina kom eftir frábæran sprett Eiðs upp völlinn og þríhyrningaspil við samherja.

Eiður Smári er orðinn 34 ára gamall en hann hefur ekki byrjað betur hjá neinu af þeim ellefu félögum sem hann hefur spilað áður með á ferlinum. Eiður hafði mest áður skorað tvö mörk í fyrstu sjö deildarleikjum sínum en því náði hann með Val 1994, með Bolton í ensku b-deildinni 1998 og hjá Barcelona 2006.

Eiður Smári er þegar búinn að jafna met sitt eftir fyrstu tíu leikina en hann skoraði fimm mörk í fyrstu tíu leikjunum með Barcelona 2006. Eiður Smári hefur þrjá leiki til þess að bæta við það en hann skoraði fjögur mörk í fyrstu tíu deildarleikjunum með Val og Bolton.

Byrjun Eiðs Smára með Barcelona var einnig mögnuð hvað það varðar að hann lagði upp, auk markanna fimm, fjögur mörk fyrstu mánuði sína í búningi Barca og Börsungar unnu alla leikina nema einn. Fimmta markið hans það tímabil kom í lok nóvember en var jafnframt síðasta deildarmarkið sem hann skoraði á tímabilinu 2006-07.

Eiður Smári hefur nú fundið skotskóna sína aftur sem má kannski segja að hafi verið týndir í fimm ár. Eiður Smári hefur skorað jafnmörg mörk fyrstu sex vikur sínar með Cercle og hann gerði til samans undanfarin fjögur tímabil með Barcelona, Mónakó, Tottenham, Stoke, Fulham og AEK Aþenu (5 mörk í 68 leikjum).

Bestu markatímabilin hjá Eiði Smára voru með Bolton í ensku b-deildinni 1999-2000 og með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni 2001-02 en bæði þessi tímabil skoraði hann 14 mörk. Hann á að baki fimm tímabil með tíu mörk eða fleiri (fjögur með Chelsea) en það er líklegt að þau verði orðin sex haldi okkar maður uppteknum hætti í Belgíu.

Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands, fylgist líka örugglega vel með Eiði Smára sem hefur lýst yfir áhuga á að spila áfram með íslenska landsliðinu og reyna að bæta við markamet sitt sem stendur nú í 24 mörkum.

Cercle Brugge er í fallsæti í belgísku deildinni en liðið hefur náð í fjögur stig út úr tveimur síðustu leikjum sínum. Næstu fjórir leikir liðsins eru á móti liðum í efri hluta deildarinnar og það því ljóst að liðið þarf á snilldartöktum Eiðs Smára að halda í þeim leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×